Skip to Content

Almennt hópstarf

Hlutverk hópa innan vistbyggðarráðs.

Tilgangur Vistbyggðarráðs er að vera leiðandi vettvangur á sviði sjálfbærrar þróunar við skipulag, hönnun, byggingu, rekstur og viðhald mannvirkja á Íslandi. Samtökin skulu hvetja til stöðugra umbóta í anda sjálfbærrar þróunar í mannvirkjagerð og skipulagi og stuðla þannig að því að þjóðin geti ávallt búið við heilbrigð og góð lífsskilyrði í vistvænni byggð.

Faglegt starf Vistbyggðarráðs fer fram í vinnuhópum sem hver og einn fjallar um afmarkað svið og/eða annað sem tengist grunnmarkmiðum félagsins og er til þess falið að efla og miðla þeirri þekkingu sem fyrirfinnst á meðal aðildafélaga og fagaðila. Vinnuhóparnir eru hver um sig frjáls og afmörkuð eining  og vera sjálfbærir hvað varðar vinnulag og framsetningu efnis.

Framkvæmdastjóri félagsins fylgist með hópastarfi innan VBR og er tengliður á milli einstakra vinnuhópa. Hann hefur jafnframt það hlutverk að miðla niðurstöðum og áfangaskýrslum til stjórnar og aðildafélaga.

Hópstjóri er ábyrgur fyrir því að halda utan um vinngögn og fundagerðir og koma áleiðis til framkvæmdastjóra.

Vinnuhópur verður til.

Tillögur að vinnuhópum skulu sendar til framkvæmdastjóra sem kynnir þær fyrir stjórn félagsins. Framkvæmdastjóri heldur utan um kynningu og skráningu í vinnuhópa og boðar til fyrsta fundar. Vinnuhópar eru sjálfstæðar einingar sem starfi samkvæmt eigin markmiðum og áætlunum.

Komi til ágreinings innan hóps (t.d. varðandi stjórnun og vinnulag) þarf að tilkynna það framkvæmdastjóra sem leggur ágreiningsefni fyrir stjórn til úrlausnar.

Framkvæmdastjóri getur fyrir hönd stjórnar óskað eftir upplýsingum um starfsemi vinnuhóps.

Hópar skila af sér ályktunum og niðurstöðum gagnvart skýrt afmörkuðum viðfangsefnum /markmiðum. Niðurstöður þurfa ekki að vera einróma og geta komið fram sérálit.

Þegar hópur er stofnaður skal eftirfarandi vera skýrt:

  • Hlutverk hóps og markmið
  • Hversu lengi hópurinn mun starfa.

Vinnuhópur hefur verið skipaður:

  • Hópstjóri og ritari kosnir á fyrsta fundi.
  • Framkvæmdastjóri situr fyrsta vinnufund og stjórnar kosningu hópstjóra og tekur niður upplýsingar um meðlimi og grunnmarkmið.
  • Á öðrum fundi skal hópstjóri leggja fram tillögu meginmarkmið og hlutverk vinnuhóps
  • Á öðrum fundi verði lögð fram áætlun um vinnulag og tímaramma og sú áætlun send framkvæmdastjóra sem hefur það hlutverk að fylgja eftir vinnu þeirri sem fer fram í vinnuhópum.

Niðurstöður:

Allir vinnuhópar skulu skila inn áfangaskýrslu á 6 mánaða fresti til framkvæmdastjóra sem kynni hana fyrir stjórn. Þar koma fram verkefni, markmið , dagsetningar, fjöldi funda og annað tengt starfsseminni. Lokaskýrslur hópa skulu jafnframt kynntar á aðalfundi. Þar skulu einnig lagðar fram (ef við á) tillögur til samþykktar. Niðurstöður skulu í kjölfarið kynntar á heimasíðu félagsins.