Skip to Content

Vistbyggðarráð

Ef litið er á þróun í byggingariðnaði á Íslandi á síðustu hundrað árum eða svo má glögglega sjá að gæði mannvirkja hafa aukist svo um munar. Á sama tíma hefur þróun í átt að vistvænni aðferðum við hönnun, byggingu og skipulag byggðar ekki verið fyrirferðarmikil. Ekki svo að skilja að umræður hafi ekki átt sér stað um málefnið. Opinberar stofnanir hafa skrifað skýrslur um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi og tekið þátt í alþjóðlegum ráðstefnum og eins hafa málþing og ráðstefnur verið haldnar um þetta málefni hér innanlands.

Einhvern veginn hefur hugmyndin um vistvænar vinnuaðferðir í byggingariðnaði þó ekki ennþá náð almennilegri fótfestu hér á landi. Undanfarin misseri má hins vegar sjá greinileg merki þess víða í þjóðfélaginu að hugarfar okkar virðist vera að breytast og umræða um umhverfismál í mannvirkjagerð að breiðast út. Fyrirtæki eru í auknum mæli farin að setja sér markmið í umhverfismálum, nokkur fyrirtæki hafa komið sér upp umhverfisstjórnunarkerfi (ISO 14001) og áhugi á vottunum á borð við BREEAM, LEED, EPC, Green Globe, Svanen, Green Hostels og fleiri hefur aukist verulega. Sem dæmi um byggingar sem hafa verið byggðar með vistvænar áherslur að leiðarljósi er Sesseljuhús að Sólheimum í Grímsnesi. Eins má nefna að tvær byggingar hér á landi hafa verið eða verða hannaðar í samræmi við LEED vottunarkerfið og tíu byggingar í samræmi við BREEAM. Að undanförnu hefur einnig mátt sjá nokkuð breytta afstöðu til þessa málaflokks af hálfu ríkisins. Dæmi um það er Menningarstefna í mannvirkjagerð - stefna íslenskra stjórnvalda í byggingarlist frá apríl 2007, en í henni er lögð áhersla á að hið opinbera sé í forystu þegar kemur að vistvænum sjónarmiðum í skipulagi, hönnun og framkvæmdum. Einnig má í þessu samhengi nefna stefnu um vistvæn opinber innkaup frá mars 2009.

World Green Building Council

Víða um heim eru til eða eru að verða til svo kölluð „Green Building Councils“. Um þessar mundir er til dæmis verið að vinna að stofnun slíkra samtaka á Norðurlöndunum öllum. Samtökunum er ætlað að vera sameiginlegur vettvangur fyrir þróun á vistvænum áherslum í mannvirkjagerð og skipulagi í hverju landi fyrir sig. Auk landssamtaka eru einnig til alþjóðleg samtök, World Green Building Council (WGBC). WGBC, sem stofnað var árið 2002 af samtökum átta landa, er óháð ráð sem hefur það að meginmarkmiði að flýta fyrir framþróun á vistvænni hönnun í byggingariðnaði í heiminum og vera alþjóðleg rödd vistvænna gilda og þróunar í mannvirkjagerð. Samtökin veita aðildarfélögunum aðstoð og upplýsingar, sjá til þess að starf þeirra sé árangursríkt og að þau vinni saman og miðli þekkingu og reynslu sín í milli.

Undirbúningur að stofnun Vistbyggðarráðs á Íslandi

Til er í heiminum heill frumskógur af alls kyns umhverfisvottunum og aðferðum til að hanna, byggja og skipuleggja á vistvænan hátt. Vegna þessa hefur vaknað þörf fyrir sameiginlega stefnumörkun á þessu sviði í hverju landi. Það er ekki síst í litlu samfélagi eins og okkar sem þörfin fyrir samvinnu og samræmingu er brýn, enda getur verið mjög kostnaðarsamt að dreifa kröftunum auk þess sem það getur verið villandi fyrir almenning að ekki sé til sameiginleg stefna í þessum málaflokki og að mörg kerfi séu í notkun.

Í upphafi árs 2009 fór hugmyndin um að stofna einhvers konar „Icelandic Green Building Council“ að taka á sig mynd fyrir alvöru. Vorið 2009 voru haldnir þrír fundir um stofnun slíkra samtaka og hugsanlega upptöku og aðlögun umhverfisvottunarkerfis hér á landi. Fenginn var gestafyrirlesari frá BRE (Building Research Establishment) til að fjalla um BREEAM kerfið og hugsanlega aðlögun þess að íslenskum aðstæðum og annar frá DGBC (Duch Green Building Council) til að fjalla um stofnun þeirra samtaka og aðlögun BREEAM að hollenskum aðstæðum. Á fundunum sköpuðust líflegar umræður um málefnin og í stuttu máli má segja að þátttakendur hafi verið sammála um þörfina á að stofna samtök til að vinna sameiginlega að markmiðum um vistvæna byggð á Íslandi. Skiptar skoðanir voru hins vegar á því hvort og þá hvaða viðmið eða vottunarkerfi við ættum að taka upp. Að þessum fundum afstöðnum var myndaður vinnuhópur um undirbúning að stofnun „Green Building Council“ á Íslandi. Í hópnum sátu fulltrúar opinberra aðila, verkfræðistofa, arkitektastofa og verktaka.

Vistbyggðarráð stofnað

Stofnfundur Vistbyggðarráðs var haldinn þriðjudaginn 23. febrúar 2010.  Stofnfélar að samtökunum voru 32 fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög sem sýnir hinn mikla áhuga sem er fyrir samtökunum og tilgangi þeirra. Þessi hópur stofnfélaga er fjölbreyttur og samræmist því vel markmiðum um að samtökin verði vettvangur breiðrar samvinnu þeirra sem tengjast byggingariðnaði hér á landi. Í fyrstu stjórn samtakanna sátu Elín Vignisdóttir frá Verkís, Guðmundur Tryggvi Sigurðsson frá Reitum fasteignafélagi, Eysteinn Einarsson frá Eflu verkfræðistofu, Sverrir Bollason frá VSÓ ráðgjöf og Kristveig Sigurðardóttir frá Almennu verkfræðistofunni. Varamenn voru Jón Sigurðsson frá Orkuveitu Reykjavíkur og Halldór Eiríksson frá Tark.

Tilgangur Vistbyggðarráðs er að vera leiðandi vettvangur á sviði sjálfbærrar þróunar við skipulag, hönnun, byggingu, rekstur og viðhald mannvirkja á Íslandi. Samtökin skulu hvetja til stöðugra umbóta í anda sjálfbærrar þróunar í mannvirkjagerð og skipulagi og stuðla þannig að því að þjóðin geti ávallt búið við heilbrigð og góð lífsskilyrði í vistvænni byggð. Markmið samtakanna byggjast í grófum dráttum á eftirfarandi atriðum:

  • Að skilgreina íslensk viðmið fyrir vistvæna byggð sem auðvelda hönnuðum og hagsmunaðilum að þróa í auknum mæli vistvænar áherslur við skipulag, hönnun, byggingu, rekstur og viðhald mannvirkja á Íslandi.
  • Að styðja við faglega umræðu og rannsóknir á sviði vistvæns skipulags og mannvirkjagerðar.
  • Að stuðla að fræðslu almennings og hagsmunaaðila á Íslandi um vistvænt skipulag og mannvirki.
  • Að stuðla að samvinnu við erlendar systurstofnanir með það að markmiði að miðla af okkar reynslu og nýta þekkingu frá öðrum löndum.

Mikilvægt er fyrir litla þjóð að sameinast um framfarir á sviði vistvænna áherslna í byggingariðnaðinum öllum. Því er nauðsynlegt að nýta þá þekkingu sem til er víða um heim en einnig að aðlaga aðferðir og tækni frá öðrum löndum að þeim aðstæðum sem við búum við hér á landi. Stofnun Vistbyggðarráðs er stórt skref í rétta átt og verður vonandi upphafið að bylgju umbóta í anda sjálfbærrar þróunar í byggingariðnaði á Íslandi.

Höfundur greinar:

Kristveig Sigurðardóttir, verkfræðingur og 

stjórnarformaður  Vistbyggðarráðs 2010-2011.