Skip to Content

Vistbyggðardagurinn í fyrsta sinn

Hvaða lausnir höfum við í umhverfismálum? Hvað er græn bygging? Hvað er vistvænt skipulag? Hvaða borgarskipulag virkar til þess að draga úr umferð og auka lífsgæði borgarbúa?Til þess að leysa áskoranir í umhverfismálum þurfum við að taka umhverfisvænar ákvarðanir á hverjum degi og að hafa rétta fagþekkingu. Á Vistbyggðardaginn fáum við erlenda og innlenda fagaðila með mikla þekkingu á umhverfismálum til þess að fjalla um hinar fjölmörgu grænu lausnir. Mette Qvist, framkvæmdastjóri Green Building Council í Danmörku, mun halda erindi um umhverfisvænar lausnir fyrir byggingar og reynsluna frá Danmörku. Undir stjórn Mette undanfarin sex ár hefur GBC í Danmörku vaxið mikið og umhverfisáherslur og metnaður í byggingariðnaði alltaf verið að aukast. Eric Holding, arkitekt og borgarhönnuður frá Bretlandi, mun fjalla um umhverfisvænt skipulag og mögulegar lausnir fyrir Reykjavík, en Eric hefur verið ráðgjafi í fjölmörgum verkefnum á Íslandi, til dæmis varðandi Urriðaholtið sem var nýlega valið af Norrænu ráðherranefndinni sem fordæmi um hvernig hægt er að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, kemur og kynnir grænar áherslur í Reykjavík, en fjölmörg spennandi verkefni eru í gangi hjá borginni. Guðrún Ingvarsdóttir, nýr forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, fjallar um grænar áherslur Framkvæmdasýslunnar sem eru sífellt að þróast. Gísli Marteinn Baldursson borgarfræðingur mun fjalla um ógöngur í bílaborg, en hann er þekktur fyrir faglegar og umhverfisvænar skoðanir sýnar á borgarskipulagi. Gæðastjóri Íslenskra aðalverktaka, Þórður Karlsson, mun kynna sjónarmið varðandi vistvæna þróun, en ÍAV voru verktakar til dæmis í BREEAM vottaða fangelsinu á Hólmsheiði. IKEA er að byggja fyrsta Svansvottaða fjölbýlishúsið á Íslandi og mun umhverfis- og markaðsfulltrúi IKEA, Guðný Kamilla Aradóttir, kynna verkefnið. Búseti er á fullu að vinna að íbúðauppbyggingu í borginni og mun Ágústa Guðmundsdóttir markaðsstjóri fara yfir stöðu mála hjá þeim. Fjölmörg fleiri áhugaverð erindi verða á dagskrá (sjá viðhengi). Vistbyggðardagurinn er skipulagður af Vistbyggðarráði í samstarfi við Mannvirkjastofnun og Framkvæmdasýslu ríkisins. Skráning á vbr@vbr.is, verð 6.000 kr. fyrir aðila að Vistbyggðarráði, 9.000 kr. fyrir aðra, 2.000 kr. fyrir háskólanema.