Skip to Content

Vistbyggðarráð og náttúra.is í samstarf

Vistbyggðarráð og Náttúran ehf, sem rekur vefsetrið nattura.is, hafa gert með sér samstarf  til tveggja ára, um  miðlun, fræðslu og framsetningu upplýsinga um aðgengi að vistvottuðum byggingarvörum hérlendis  m.a.  í gegnum vefsíðuna natturan.is, ásamt því að hafa samstarf um undirbúning og greiningu markaðar fyrir vistvænar byggingarvörur. Einnig verður lögð áhersla á gagnkvæma upplýsingamiðlun í tengslum við kynningarefni og einstaka viðburði.
Eitt af hlutverkum Vistbyggðarráðs er að skilgreina íslensk viðmið fyrir vistvæna byggð sem auðveldar hönnuðum, framkvæmdar-  og hagsmunaðilum að þróa í auknum mæli vistvænar áherslur við skipulag, hönnun, byggingu, rekstur og viðhald mannvirkja. Góður aðgangur að upplýsingum á vefnum um það hvar sé hægt að nálgast vistvænnar byggingarvöru er einn liður í því að fræða og efla umræðu um umhverfisárhrif bygginga og hvaða kostir séu í stöðunni vilji fólk fara umhverfisvænni leiðir í framkvæmdum og við viðhald bygginga.
Náttúran er ehf. er sjálfstætt starfandi tækniþróunarfyrirtæki sem rekur vefsetrið náttúran.is og stendur að útgáfu ýmis konar fræðsluefnis og tóla í þeim tilgangi að þjóna neytendum og markaði með áreiðanlegum upplýsingum um allt sem snertir umhverfi og heilsu. Fyrirtækið sérhæfir sig í söfnun og miðlun upplýsinga um flest það sem snertir umhverfismál, náttúruna og manngert umhverfi, með áherslu á heimilið, neyslu, rekstur og  starfsemi til þess að hægt sé að bera saman vöruframboð og þjónustu sem uppfyllir ýmis skilyrði um vistvottun.
Samstarfið byggir á því að nýta þá þekkingu, reynslu og tengslanet sem hvor aðili fyrir sig býr yfir til þess að miðla áfram upplýsingum um það hvað við sem neytendur getum gert til að draga úr neikvæðum umhverifsáhrifum bygginga og hvernig við getum tekið meðvitaðar ákvarðanir um innkaup á forsendum umhverfissjónarmiða hvort sem það er við val á málingu, innréttingum og jafnvel húsgögnum, svo ekki sé minnst á endurnýtingu byggingarefnis og  ýmsar vistvænar lausnir og aðferðir við nýbyggingar og umfangsmikið viðhald og endurgerð bygginga.
Einn liður til að bæta þetta aðgengi er nýtt ókeypis app fyrir snjallsíma og vef sem ber heitið, Húsið og umhverfið og  hægt er að nálgast hér.